VALMYND ×

Um lestrarkennslu

Undirbúningur lestrarnáms
Allt frá fæðingu eru börn að læra, þau eru þá þegar farin að búa sig undir lestrarnám. Þau byggja upp þekkingu sína gegnum uppgötvanir um ritmálið í umhverfi sínu og ekki síst gegnum bóklestur og málhvetjandi samskipti við
fullorðna og önnur börn. Þegar lestur er á forsendum barnsins og hann vekur forvitni þess og áhuga er lagður mikilvægur grunnur að málþroska þess og undirbýr það fyrir lestrarnám seinna meir. Í bernsku mótast viðhorf barna til lestrar. Sá grunnur er lagður á heimilum og í leikskólum. Því jákvæðari og auðugri sem sú reynsla er, þeim mun frekar mótar hún þekkingu og nám sem þau tileinka sér á þessum árum, en er jafnframt mikilvægur grunnur að námshæfni þeirra. Börn sem alast upp við jákvætt viðhorf til lesturs og ríkt málumhverfi á leikskólaaldri eru oft komin vel á veg með lestur vegna hvetjandi aðstæðna heima og í leikskóla án þess að formleg lestrarkennsla
hafi átt sér stað. Lestur góðra bóka er besta leiðin til að efla orðaforða barna og búa þau undir áframhaldandi skólagöngu, en góður orðaforði er ein meginforsenda fyrir góðum lesskilningi. Börn sem eru lengi að ná tökum á lestri missa af þessu tækifæri til að efla orðaforða sinn ef ekki er lesið fyrir þau.


Heimalestur – nokkrar góðar ábendingar
Víða má finna góð ráð og ábendingar um það hvernig foreldrar og annað heimilisfólk getur örvað lestraráhuga barna og aðstoðað þau við lestrarnámið.

Þar má t.d. benda á vef Heimilis og skóla, Lesvefinn og vefinn BarnUng, þaðan sem
neðangreindar ábendingar eru ættaðar:
• Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef þau sjá foreldra sína taka bók fram yfir tölvu eða sjónvarp aukast líkurnar á því að þau kjósi sjálf að lesa.
• Ræddu um bókmenntir við barnið þitt, um bókina sem það er að lesa og upplifun þína af því sem þú lest.
• Farið saman á bókasafnið og skoðið bæði barna- og fullorðinsbækur. Sýndu barnabókunum áhuga og finndu bækur sem þú hefðir áhuga á að lesa.
• Lestu bækur sem barnið þitt er að lesa, þannig að þið getið rætt saman um þær. Með því að lesa barna- og unglingabækur getur þú líka mælt með bókum við barnið þitt. Góð bók stendur alltaf fyrir sínu, hvort sem hún
heitir barna- eða fullorðinsbók.
• Lestu fyrir barnið ef bókin byrjar hægt og því gengur illa að komast inn í atburðarásina. Einnig getið þið skipst á að lesa ef barninu sækist lesturinn hægt. Enginn er of gamall til að láta lesa fyrir sig! Hljóðbækur og útvarpssögur æfa okkur einnig í að hlusta og þjálfa einbeitingu.
• Gerðu lesturinn að notalegri stund. Það er allt eins hægt að kúra með snarl og drykk yfir góðri bók eins og bíómynd (Þuríður J. Jóhannsdóttir og Torfi Hjartarson).

« Júní »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30