VALMYND ×

Almenn málörvun og markviss örvun læsis í leikskólanum

Í nýrri Skólanámskrá leikskólans eru settar fram leiðir hvernig vinna á að því að ná fram menntunarstefnu stjórnvalda, námsframboð og námskröfur sem birtar eru  í AÐALNÁMSKRÁ LEIKSKÓLA  2011. Málrækt og læsi er eitt af grunnþáttum menntunar. Ísafjarðarbær hefur sett af stað verkefni bæði fyrir leik- og grunnskóla með enn frekari áherslu á málrækt og læsi. Er yfirskriftin „Stillum saman strengi“ og markmiðið er að bæta námsárangur barna í Ísafjarðarbæ.  Fyrir börnin, sjálfsmynd þeirra og framtíð. Við viljum að fólk flytji vestur af því að hér eru mjög góðir skólar.

Hvernig unnið er með læsi og stærðfræði á yngri deildum Sólborgar ( Eins, tveggja og þriggja ára):

 • - Við lesum fyrir börnin a.m.k. tvisvar á dag í frjálsum tíma.
 • - Söngstund , alla daga - syngjum, lesum spjaldsögur, og þulur og vísur.
 • - Í hópastarfi, tvisvar i viku, byrjum við á því að syngja nafnasönginn „ Nú skulum við segja  hvað við heitum“ og klöppum nöfnin, lesum,  spilum bingó  eða önnur samstæðuspil og einnig spjöllum við saman á meðan við erum að mála eða í annarri sköpun, um liti, form, tölur, stafi og þess háttar .
 • - Í matartímanum förum við yfir ýmis hugtök og tölur sem ber á góma við matarborðið, eins og t.d. lítið-mikið, heitt-kalt, hart-mjúkt og hvað eru mörg börn við borðið, mörg glös og diskar.
 • - Upphafstafir barna og myndir eru sýnilegar upp á vegg  á deildinni. Með þessu  er verið að tengja form stafsins og hljóðið við nafn barnsins og það lærir stafinn sinn fyrr. Einnig sjá þau hver eða hverjir eiga alveg eins stafi. Börnin læra að þekkja nöfn hinna barnanna þegar þau sjá nöfnin myndrænt upp á vegg og tengja þau við mynd hvers og eins.
 • - Myndir og nöfn á stólum barnanna. Þar læra þau að tengja mynd og nafn saman.
 • - Myndrænt dagskipulag þar sem bæði myndir og bókstafir skýra út hvernig stundataflan þeirra lítur út.

 

Hvernig unnið er markvist með málörvun á eldri deildum Sólborgar (Þriggja til fimm ára):

 Einu sinni í viku fer hver hópur í markvissa málörvunar stund. Flestir kennarar nýta sér bókina ,,Markviss málörvun“ sem leiðarvísir í þessum tímum auk hennar höfum við komið okkur upp gagnasafni með ýmsum bókum, leikjum og spilum sem kennarar grípa í.

Auk þessara föstu tíma þá nýtum við upphaf hvers hópastarfs í létta málörvunarleiki svo sem klappa nöfn, heimaþekkingu og þulur. Hópastarfið okkar hér á Sólborg byggir á þema vinnu þar sem við vinnum með ákveðin viðfangsefni. Í þessari þemavinnu lesum við bækur sem fjalla um viðfangsefnið, finnum lög og þulur og lærum og skilgreinum ný orð sem tengjast viðfangsefninu. Í þessari vinnu nýtum við könnunarvefinn þar sem kennarinn skráir hugmyndir barnanna um viðfangsefnið, en þar fá börnin að sjá hugmyndir sínar sjónrænt í ritmáli.

Heilmikil málörvun á sér stað í samverustundum, sem eru þrisvar sinnum á dag, þar sem við leggjum inn ný lög og þulur. Í þessum samverustundum eru  lesnar bækur og umræður um daglegt líf á sér stað, þar sem við skilgreinum ýmsa atburði og ræðum það sem er framundan. Í samverustundum ræðum við um það hvaða dagur er og mánuður. Auk þessa æfa börnin sig í því að koma fram í samverustundum, þar sem þau segja frá því hvað  var gert í hópastarfinu auk þess fá þau stundum að koma upp og tjá sig.  Við erum með þjóna sem koma alltaf inn í lok samverustundar og segja frá því hvað sé í matinn. 

Einu sinni í viku höfum við gleðistund, þar sem ýmist allur leikskólinn kemur saman eða bara eldri deildarnar. Í þeim stundum er mikið sungið, sagðar sögur og sýndir leikþættir. Ætlunin er að hver árgangur komi fram í þessum gleðistundum einu sinni í mánuði, þar sem þau æfast í því að standa fyrir framan stóran hóp.

Annan hvern föstudag er reynt að fara í hring og hópleiki á eldri deildunum, þar sem söngur og þulur eru nýttar.

Nöfn barnanna eru mjög sjónræn á deildinni og eru öll börnin byrjuð að þekkja bæði nöfnin sín og stafi.

Auk allra þessa stunda er hvert tækifæri nýtt í spjall, lestur og söng. Hvort sem það er spjall í fataklefanum um veðurfar og klæðnað, í hvaða röð við förum í fötin, við matarborðið þar sem við tölum um daginn og veginn, ræðum um matinn og ýmis hugtök. Einnig má mjög oft sjá kennara með bók í hönd við lestur í frjálsum tímum  auk þess grípum við tækifærið til þess að ræða um ný hugtök þegar þau koma fram.

Fyrir frjálsa leikinn  höfum við alltaf val, þar sem börnin velja hvar þau vilja leika. Á hverju svæði má bara vera ákveðinn fjöldi barna, þau átta sig á því að sumsstaðar mega bara vera fjórir en annarstaðar sex og að sex er meira en fjórir.

Hvernig unnið er með læsi og málörvun hjá elstubörnin í Sólborg 

 • - Erum með þulu mánaðarins sem við vinnum með í kaffitímanum.
 • - Það eru lesnar framhaldssögur í hvíld sem allir fara í einu sinni á dag. Einnig er þá unnið með valin orð. Þau eru útskýrð og reynt að finna samheiti.
 • - Það er söngstund einu sinni á dag. Þar eru oft sungin þematengd lög.
 • - Hver hópur fer á bókasafn fjórðu hverja viku, þar er lesið fyrir þau og teknar bækur á pólsku og íslensku.
 • - Tvisvar í viku er farið í tónlistarskóla þar sem eru sungin lög. Einnig er þeim stundum skipt í hópa og hver hópur kemur fram og syngur eitt lag fyrir hina.
 • - Ljáðu mér eyra er notað í hópastarfi og þá sem spil.
 • - Við notum Orðagull í hópastarfi til að vinna með orðaforða og auka heyrnrænt minni og til að læra að fara eftir fyrirmælum.
 • - Efnið Markviss málörvun er notað til að æfa rím og annað.
 • - Allir hópatímar byrja á stuttri málörvun og er það útfært eftir því hvað hver og einn er að gera hverju sinni.
 • - Frjáls leikurmeð stafi og einnig undir stjórn kennara.
 • - Ipad er notaður til að æfa sig í að skrifa stafi og tölustafi. Einnig eru notaðir leikir þar sem þau eru að flokka form eftir lögun og lit.

Hvernig unnið er með læsi ogstærðfræði hjá elstubörnin í Sólborg  eftir sumarfrí 2015:

 • - Unnið er með form: Nemendum kennd heitin á þeim og í útinámi er leitað að formum. Þau fara í leiki þar sem þau flokka form eftir lögun og stærð. Þau klippa út form.
 • - Tölur: Nemendum er kennt að telja og skrifa tölur.
 • - Unnið er með hugtök eins og stærri, minnsti, til hliðar við og fleira.
 • - Í mars verða allir nemendur teknir í hugtakapróf í stærðfræði og niðurstöðurnar notaðar til að meta hvar þarf að bæta við og hvað gengur vel.

 Síðan eru ýmsir leikir sem farið er í, þar sem nemendur eru að leika sér með tölur og stafi.

Þroskaskimanirnar  sem sérkennslustjóri Sólborgar sér um og deildastjórar:

Ef grunur vaknar um  frávik í þroska sér sérkennslustjóri um frumathuganir í samráði og með skriflegu samþykki foreldra. Ef ástæða þykir eru kallaðir til aðrir sérfræðingar til frekari athugunar og ráðgjafar. Hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar er höfð að leiðarljósi og komið með íhlutun um leið og vandinn hefur verið greindur. Sérkennsla og stuðningur fléttast inn í daglegt starf  leikskólans og er meginreglan sú að sérkennslan fari fram í hópum með öðrum börnum. Markmiðið með sérkennslu er að styðja  við barnið og skapa aðstöðu til að það geti  þroskast sem best á eigin forsendum.

Sérkennslustjóri ber ábyrgð á og stjórnar skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar í leikskólanum í samráði við leikskólastjóra.

Eftirfarandi skimunarpróf eru notuð :

Orðaskil, EFI-2, AAL –listinn, Kuno Beller, Hreyfiþroskapróf, HLJÓM -2, Tove Krogh.

Þau gögn sem fylgja barninu milli leik- og grunnskóla eru Hljómprófin sem gerð eru á börnum á síðasta ári í leikskóla auk þeirra persónulegu upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir velferð barnsins og aðlögun þess í grunnskóla s.s. niðurstöður athugana sérfræðinga. Það sama á við ef barn flytur á milli leikskóla.

« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31