VALMYND ×

Fréttir

Kynning á  starfi Sólborgar í anda hugmyndafræði  Reggio  Emilia

Til að átta sig betur á hugmyndafræðinni er mikilvægt að hafa í huga út frá hvað aðstæðum hún er sprottin. Aðal hugmyndasmiðurinn og frumkvöðulinn að starfinu í Reggio Emilia sem er borg á norður Ítalíu, var kennarinn og sálfræðingurinn Loris Malaguzzi (f. 23.02.1920 d. 30.01.1994).

Það var sex dögum eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk, að nokkrar mæður tóku sig til og ákváðu að byggja leikskóla fyrir börn. Þessar mæður höfðu upplifað hörmungar stríðsins, fjölskyldur voru tvístraðar og særðar, og mikil eyðilegging átt sér stað. Þær vildu að börn sín stæðu betur vörð um lýðræðið en þeirra kynslóð hafði gert. Þess vegna er lýðræði sterkur þáttur í uppeldisstarfi í Reggio.

Loris Malaguzzi heillaðist að krafti og bjartsýni þessara kvenna og ákvað að taka þátt í þessu ævintýri með þeim. Hann barist fyrir hugsjón sinni í meira en þrjá áratugi. Árið 1963 tók hann að sér formennsku leikskólamála á vegum borgaryfirvalda. Kirkjan hafði fram til þessa verið einráð í uppeldismálum í um áratug og samkeppni á milli skólanna. Reggio skólarnir þurftu því að sanna gildi sitt og að þeirra væri þörf. Í leikskólunum var strax var farið að vinna að ákveðnum þemaverkefnum og notað til þess skapandi starf. Í dag hafa skólarnir í Reggio fengið verðskuldaða athygli um allan heim og 1991 útnefndi blaðið Newsweek leikskólann Díana í Reggio Emilia sem besta leikskóla heims.

1981 byrjuðu nokkrir leikskólar í Svíþjóð að starfa í anda þessarar hugmyndafræði og Marbakki í Kópavogi 1988. Núna erum um 25 – 30 leikskólar á Íslandi sem starfa í anda þessarar hugmyndafræði.

Leikskólastarf í anda Reggio Emilia hefur vakið athygli fyrir þann merkilega árangur sem náðst hefur í starfi með börnum. Þar hefur m.a. verið sýnt fram á að börn hafa meiri þekkingu og getu en hefðbundnar kenningar gerðu ráð fyrir. Það sést á verkum , hugsunum og samtölum barnanna.

Loris Malaguzzi leit svo á að uppeldisfræðin væri sífellt að breytast líkt og börnin og heimurinn sem við lifum í breytist. Hann gagnrýndi hina vestræna menningu og skóla fyrir að afneita líkama og tilfinningum barna og fyrir að upphefja kerfishugsun, rökhyggju og talað mál. Hann vildi sameina vísindi, listir, hugmyndaflug, líkama og sál. Hann sagði að leikskólauppeldi eigi að snúast um viðhorf okkar til barna og sýn okkar á börn sem mikils megnuga einstaklinga.

Meginmarkmiðið í uppeldisstarfinu er að hvetja barnið til að nota öll sín skilningarvit, málin sín hundrað, og vinna markvisst að því að virkja frumlega og skapandi hugsun hjá börnum. Við erum ekki öll eins og eigum ekki að vera það. Við eigum ekki að móta alla í sama formið, heldur eigum við að fá að vera fjölbreytt og litskrúðug. Við þurfum að læra að sýna hvort öðru virðingu og taka fjölbreytileikanum fagnandi.

Að starfa í anda Reggio Emilia felur í sér að tileinka sér ákveðna lífsýn til barna og til umhverfisins,og læra að rannsaka umhverfið með börnunum. Hlutverk kennarans í Reggiostarfi er að hlusta og reyna að sjá hvaða stefnu barnið tekur þegar það tileinkar sér þekkingu – að styðja barnið í þeirri stefnu sem það tekur þ.e. kennarinn þarf að læra að grípa boltann sem barnið kastar til hans og kasta boltanum á þann hátt til baka að barnið vilji halda áfram. Í hugmyndafræði leikskóla sem starfa í anda Reggio Emilia er því haldið fram að í leikskóla móti þrír kennarar barnið þ.e. leikskólakennarinn, nemendahópurinn og umhverfið.

Í þeim leikskólum sem starfa í anda Reggio Emilia er mikið rökrætt við börnin, jafnvel mjög ung börn og spurt opinna spurninga – hvað – hvernig – hvers vegna. Opnar spurningar hvetja börnin til að leita svara.þau verða að fá nægan tíma til þess að hugsa og leita svara. Mikilvægt er að hinn fullorðni hlusti á barnið og skrái hjá sér. Með því öðlast hinn fullorðni betri skilning og þekkingu á hugarheimi barnsins. Mikið er lagt upp úr hinu sjónræna uppeldi barnsins. Börn eru ekki sljóir viðtakendur heldur á umhverfið að vera þannig að það virki hvetjandi og leiði til skapandi hugsunnar.

Mikilvægt er að skilja samhengið á milli þess sem barnið sér með eigin augum. Börn eiga að fá verkefni til þess að vinna úr, festa í minni reynslu sína og æfa sig í að tjá sig á einhverjum af sínum hundrað málum. Börnum er kennt að sjá og skilgreina hlutina, sjá þá út frá mörgum ólíkum hliðum, skynja margbreytileikann, ígrunda og taka afstöðu. Með þessum hætti mótast gagnrýn hugsun.

Leikskólinn Sólborg skapar sér sitt Reggiostarf út frá því umhverfi og menningu sem hann er í, með Aðalnámskrá leikskóla, lög um leikskóla og skólastefnu Ísafjarðarbæjar að leiðarljósi.

 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31